20.3.2010 | 23:21
Öðlingamótið...
Þessa daganna taka fjórir félagar SSON þátt í Öðlingamóti TR sem fram fer í Reykjavík, höfuðborg Íslands, þeim gekk öllum vel í 1.umferð, unnu allir sínar skákir, utan Magnús Gunnarsson sem gerði jafntefli í vel tefldri baráttuskák.
Í 2.umferð er víst að róður komi til með að þyngjast enda mæta Selfyssingar þá meira eða minna miklum spámönnum af höfðuborgarsvæðinu.
Magnús Gunnarsson kemur til með að kljást við hinn valinkunna Bjarna Hjartarson sem aftur hefur snúið að reitunum 64 eftir margra ára hlé og hefur þegar sýnt og sannað að hann er fráleitt aukvissi þegar kemur að færslu skákmanna á reitunum.
Ingimundur Sigurmundsson fær það vafasama hlutskipti að takast á við menntaskólakennarann og stjórnarmeðlim TR sjálfan Eirík Björnsson sem síðast tapaði skák árið 1978.
Bróðir Ingimundar, Úlfhéðinn sem er sá keppenda sem um lengstan veg á mótið hefur að fara-123 kílómetra mætir Hauki Bergmann sem í fyrstu umferð lagði sjálfan formann TG Pál Sigurðsson.
Magnús Matthíasson fyrrverandi formaður Taflfélags Vestmannaeyja og núverandi formaður SSON teflir við Braga Halldórsson sem einmitt eins og áðurnefndur Eiríkur er menntaskólakennarari og þekktur fyrir sinn ótrúlega trausta skákstíl.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt 21.3.2010 kl. 03:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.