17.2.2011 | 01:44
Skákfélag Vinjar vinnur og SSON líka !
Það voru 8 Selfyssingar og nærsveitungar sem lögðu á heiðina skömmu eftir kvöldmjaltir, fullir eftirvæntingar, klyfjaðir vistum og útilegubúnaði til höfuðborgarferðar, sá níundi kom til leiks í Reykjavík.
Fjórsetið var í tveimur bílum til Reykjavíkur og var tekinn sú strategíska ákvörðun að hafa Erlingana saman í bíl ásamt Þorvaldi og Ingvari, á meðan formaðurinn hýsti Úlfhéðinn og kippti Magnúsi Garðars og Kasparovsbananum Grantas með í Hveragerði. Grantas tók ekki í mál að missa af þessari viðureign þrátt fyrir að hafa nýverið gengist undir lungna og hjartaaðgerð, skákáhugi, já segðu nafni !
Tilhlökkun, spenna, ást og hræðsla í loftinu þegar Flóamenn gengu í salinn í aðalbækistöðvum Skákfélagsins Vinjar að Hverfisgötu.
Teflt var á 9 borðum í kvöld, 7 mínútna skákir, gestgjafar sátu meðan gestir færðust til vinstri.
Ástarguðinn sjálfur Robert Lagermann kynnti sjálfan sig til leiks sem skákstjóri og yfirdómari og lék fyrsta leik í viðureign Hrafns og Magnúsar - ljóst að keppnin var í góðum höndum.
Arnar Valgeirsson skákgúrú þeirra höfuðborgarbúa bauð gesti velkomna og lét um leið hlý orð falla í þeirra garð.
Vinjarmenn miklir höfðingjar heim að sækja, nema þegar kemur að taflmennsku, þá er ekkert gefið og teflt í fulla hnefa.
Fyrstu umferð vann Vin, 5-4, Selfyssingar að virtist enn að jafna sig eftir ferðalagið langa eða voru þeir ef til vill enn að treysta á æðri handleiðslu eins og í síðustu umferð fyrri viðureignar þegar þeir unnu 8-0 og þar með viðureignina 36-28, já stórt er spurt í Flóa.
Þá næstu vann Vin einnig, staðan 11-7.
Þriðju umferð vann Vin 5-4.
Loksins í fjórðu umferð náðu SSON menn að spýta í lófa og höfðu góðan 5,5-3,5 sigur, en Vin vann þá fimmtu og hafði yfir í hléi 24,5-20,5.
Var þá komið að veitingum, sem ekki voru við nögl skornar, og gerðu menn þeim góð skil, fullgóð kannski sumir.
Arnar kvað sér hljóðs og þakkaði gestum komu og lét ekki þar við sitja heldur færði Skákfélagi Selfoss einar 20 skákbækur að gjöf og einn Morgan Kane.
Hrafn Jökulsson, skákpabbi Íslands, sem teflir þessi dægrin fyrir Vin, reis einnig úr sæti og færði Skákfélagi Vinjar forláta möppu með ljósmyndum af starfi félagsins undangengin ár.
Hin hógværi formaður SSON þakkaði góðar gjafir og færði gestgjöfum geisladisk með merkum upptökum skáksögunnar að gjöf.
Einstaka menn nýttu hlé einnig til reykinga meðan aðrir báru saman sínar margfrægu bækur. Skákstjórinn röggsami hvarf af vettvangi, hafði líklega öðrum hnöppum að hneppa. HJ, AV og MM tóku við.
Eftir kaffi komu Vinverjar sterkir til leiks og höfðu öruggan sigur í 6.umferð 5,5-3,5, Selfyssingar klóruðu í bakkann og höfðu 5-4 sigur í þeirri sjöundu, en var sparkað jafnharðan í strauminn og töpuðu þeirri áttundu og næstsíðustu 6-3. Ljóst að annað undur eða kraftaverk þyrfti til að Selfyssingar ynnu viðureign kvöldsins enda staðan fyrir síðustu umferð 40-32.
Kraftaverk átti sér ekki stað né flugu andar framliðinna heimsmeistara yfir salinn í þetta sinn, því þótt Selfyssingar hefðu sigur í síðustu umferð, dugði það þeim ekki til og Vinverjar höfðu öruggan og mjög svo sanngjarnan sigur í viðureigninni 44-37.
Bestum árangri Skákfélags Vinjar náðu þeir Hrannar Jónsson og Hrafn Jökulsson með 7,5 vinninga og Björn Sölvi var síðan með 6 vinninga.
Bestum árangri gestanna náðu þeir Úlfhéðinn Sigurmundsson og Magnús Matthíasson með 7,5 vinninga, Ingimundur, bróðir Úlfhéðins, var síðan með 5,5 vinninga.
Nú lokaniðurstaðan í þessari sögulegu viðureign, eftir að leikið hefur verið heima og heiman og tefldar svo mikið sem 155 skákir er sú að Skákfélag Selfoss og nágrennis hefur sigur með 73 vinningum gegn 72 vinningum Skákfélags Vinjar.
Myndaalbúm: sjá efst á síðu.
GENS UNA SUMUS...............meine Freunde !
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 01:50 | Facebook
Athugasemdir
vér þökkum árborgarmeðlimum komuna yfir heiðarnar. maður vissi að þetta yrði blóðugt en allir snéru þó þokkalega heilir heim. sting upp á því að þetta verði árlegur viðburður.
arnar valgeirsson, 17.2.2011 kl. 13:50
Vér þökkum Vinjarmeðlimum móttökur góðar og viðurgjörning, árlegur að sjálfsögðu Arnar !
SSON - Skákfélag Selfoss og nágrennis, 17.2.2011 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.