Keppendakynning

 Björn Ívar Karlsson

Björn Ívar Karlsson er fyrsti keppandinn sem hér verður kynntur til sögunnar.  Björn Ívar er fæddur árið 1985.  Hann vakti fyrst athygli á sér sem ungur drengur í Eyjum þegar hann fór að mæta á skákæfingar hjá Taflfélagi Vestmannaeyja ekki mikið eldri en 10 vetra. 

Fljótt varð ljóst að hann hafði til að bera þó nokkra hæfileika, þeir voru ekki síst fólgnir í gríðarlegri þrautsegju, hann var alltaf yngsti keppandinn á mótum og jafnframt eina barnið sem þátt tók.  Undir venjulegum kringumstæðum myndu ung börn ekki standast álagið að tefla ætíð við sér eldri og sterkari skákmenn, en Björn Ívar tvíefldist við mótlætið. 

Því gerðist fljótlega það að Björn Ívar fór að uppskera sem sáð var og ekki bara fór að hirða vinninga af hinum eldri heldur fór að vinna mót.  Fyrsta mótið sem hann vann í Eyjum var Haustmótið 1998, mótið vann hann með fullu húsi vinninga.  Skákmeistari Vestmannaeyja varð hann í fyrsta sinn árið 2001 og hefur unnið þann titil einu sinni eftir það.  Reyndar má ætla að hann hefði unnið hann oftar ef hann hefði ekki flust á fastalandið 16 ára þegar hann fór til Akureyrar til að stunda nám við Menntaskólann.

Björn Ívar hefur frá upphafi teflt á Íslandsmótum fyrir TV, þó með þeirri undantekningu að hafa teflt fyrir Akureyringa í tvö tímabil.  Árangur hans með TV á Íslandsmótum undanfarin ár er einstakur þar sem hann hefur líklega aldrei verið með minna en 70% vinningshlutfall og tapskákir er hægt að telja á fingrum annarar handar.

Segja má að Björn Ívar hafi ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hans er hörku skákmaður, þó afi hans og alnafni sé líklega enn betri, enda orðið skákmeistari Vestmanneyja eins og barnabarnið.

Björn Ívar er stigahæsti keppandi Suðurlandsmótsins, hann er fjallið sem menn verða að klífa ætli þeir sér að sjá til sólar á mótinu og vinna það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband