9.8.2011 | 23:39
Allt til reiðu...
fyrir viðureign SSON við Skákfélag Reykjanesbæjar.
Góð mæting var á lokaæfinguna og að henni lokinni liggur fyrir hvernig lið SSON verður skipað.
Viðureignin hefst kl 19:30 miðvikudagskvöld og eru keppendur hvattir til að mæta stundvíslega og hafa með sér nesti og keppnisskap.
8.8.2011 | 21:21
Upphitunarmót, strategíufundur og almennt spjall um lífsins gagn, nauðsynjar og annað er máli skiptir...
vegna viðureignar félagsins við SR fer fram annað kvöld í Selinu kl 19:30. Skyldumæting. Nefndin.
Liðsstjóri hvetur alla sem vettlingi geta valdið að mæta á þessa æfingu.
Þegar er að mestu skipað í liðið sem keppir við SR en liðsstjóri biður þá sem ekki hafa verið boðaðir að mæta á æfingu á þriðjudagskvöldið sem og á viðureignina sjálfa á miðvikudaginn þannig að þeir verði í startholunum og geti hoppað inn í liðið ef þörf krefur. 5 félagsmenn hafa staðfest komu sína á miðvikudaginn og að auki eru 3 sem eru óvissir eða geta einungis teflt hluta skáka.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2011 | 19:57
SSON vs SR
Viðureign SSON og Skákfélags Reykjanesbæjar sem er liður í Hraðskákkeppni taflfélaga fer fram á Selfossi nk. miðvikudagskvöld kl. 19:30.
Liðsstjóri er að stilla upp liði og mun reyna eftir fremsta megni að tefla fram sterku liði og biður félagsmenn um að sýna stillingu þangað til endanlegt lið liggur fyrir.
6.8.2011 | 15:42
Hraðskákkeppni taflfélaga !
Búið er að draga í fyrstu umferð Hraðskákkeppni taflfélaga sem mun vera elsta hraðskákkeppni í heimi.
SSON dróst á móti Skákfélagi Reykjanesbæjar.
Viðureigninni á að vera lokið fyrir 15.ágúst.
Formaður félagsins mun á næstu dögum ákveða tímasetningu í samráði við SR menn og eigin félagsmenn.
Teflt er á 6 borðum venju samkvæmt.
22.7.2011 | 23:01
Nýr liðsmaður !
Ingibjörg Edda Birgisdóttir Íslandsmeistari í skák hefur ákveðið að ganga til liðs við SSON.
Ingibjörg Edda sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum í skák árin 1998 og 1999 er án efa mikill og góður hvalreki fyrir félagið, ekki bara vegna ótvíræðra skákhæfileika heldur einnig vegna gríðarmikils áhuga á skáklistinni og öllu því er viðkemur hinni göfugu íþrótt.
Inga tók sér nokkurra ára skákhlé eftir að hafa unnið allt sem hægt var að vinna á Íslandi árið 1999, lítið er vitað um hana á þessum árum, sem ganga undir nafninu "týndu árin" en þó segja óstaðfestar sögusagnir að Inga eigi stóran þátt í óeðlilega hröðum framförum Ingvars bróður síns sem skyndilega birtist við skákborð Sunnlendinga árið 2009 og varð skákmeistari SSON hið sama ár auk þess að verða þriðji á Suðurlandsmótinu 2011.
Inga er hvers manns hugljúfi og sannur vinur vinna sinna en þó harðskeytt með eindæmum þegar svo ber við og á henni sannast svo sannarlega að betra er að eiga hana sem vin en óvin.
Frá því að Ingu skaut upp á yfirborðið síðasta vetur eftir sjálfskipaða skákútlegð hafa fjöldamargir vonbiðlar, einstaklingar, félagasamtök og skákfélög rennt hýru augu í hennar átt. Það er Skákfélagi Selfoss og nágrennis því sérstaklega mikið gleðiefni að hún hafi, að vel íhuguðu máli, ákveðið að bindast okkur Sunnlendingum heitböndum til eilífðarnóns.
SSON hyggur á mikla landvinninga á Suðurlandi komandi vetur og fyrir liggur að Ingu verður skipað í fylkingarbrjóst í þeim orustum sem háðar verða.
Stjórn SSON býður Ingu hjartanlega velkomna til félagsins !
f.h stjórnar SSON MM
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2011 | 12:39
Sumarfrí..
Nú þegar sumarið er gengið í garð fer félagið í sumarfrí.
Starfið hefst að nýju við upphaf septembermánuðar og þá með aðalfundi félagsins.
Stjórn hvetur félagsmenn til að slá ekki slöku við og halda sér í formi í sumar með skákrannsóknum og Müllersæfingum.
30.5.2011 | 12:13
Stigamót Hellis
Rétt er að vekja athygli félagsmanna á Stigamóti Hellis sem hefst næstkomandi miðvikudagskvöld.
Um er að ræða 7 umferða skákmót, þar sem tefldar eru 4 atskákir nk. miðvikudagskvöld, síðan eru tefldar tvær kappskákir á fimmtudeginum og 7. og síðasta umferð er síðan á föstudagskvöldinu.
Hér er um að ræða afskaplega skemmtilegt mót og er óhætt að hvetja félagsmenn til að skrá sig til leiks, þeir sem hafa hug á því eru jafnframt beðnir um að hafa samband við formann SSON varðandi samakstur á skákstað og nestismál.
Nánari upplýsingar og skráning : http://www.hellir.blog.is/blog/hellir/
Skráðir keppendur : https://spreadsheets.google.com/spreadsheet/ccc?key=0Arg3nCphWhFydGF0N1FYQ0tmTWI1QkpIQk0yQ3lMamc&authkey=CLftmi0&hl=en_US#gid=0
26.5.2011 | 00:05
Skákfélag Íslands hafði betur..
í viðureign sinni við heimamenn í SSON í kvöld.
Það voru 7 sprækir skákfélagsmenn sem mættu austur um heiðar í kvöld í þeim tilgangi að etja kappi við Selfyssinga og nærsveitunga. Fyrir þeim skákfélagsmönnum fór hinn kunni skákfrömuður Kristján Örn Elíasson sem ekki aðeins hafði komið mannskap sínum í rétta gírinn fyrir viðureignina heldur kom einnig hlaðinn bókum sem hann deildi út meðal keppenda að loknu móti.
Tefld var tvöföld umferð 5 mínútna skákir.
Selfyssingar töldu fyrir viðureignina að þeir þyrftu að eiga mjög góðan dag til að eiga roð í SFÍ-inga. Hann áttu þeir ekki og fóru lærisveinar KÖE með öruggan sigur 65-33.
Bestum árangri gestanna náði Patrekur Maron sem fékk 13 vinninga af 14, Kristján Örn var með 12,5 og Páll hinn halti Andrason 12. Bestir heimamanna voru Ingimundur með 7,5, Erlingur Jensson með 6,5 og Ingvar Örn með 6 vinninga.
Selfyssingar þakka skákfélagsmönnum kærlega fyrir komuna og vonast til að geta endurgoldið heimsóknina þegar SFÍ menn hafa keypt sér félagsheimili.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2011 | 14:13
Allt að gerast !
SFÍ-liðar munu mæta með 8 hörkuskákmenn í Selið miðvikudagskvöldið hinn 25.mai.
Viðureignin hefst stundvíslega kl. 19:30.
11.5.2011 | 17:01
SSON vs SFÍ
Viðureign SSON og SFÍ mun fara fram á Selfossi miðvikudaginn 25.maí. Teflt verður á 8 borðum.
Þeir sem hafa hug á að tefla fyrir SSON og hafa ekki látið formann vita eru beðnir um að gera það sem fyrst.